Innlent

Engin hrossakaup um málskotsrétt

Össur Skarphéðinsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórnarskrárnefnd, telur sig bundinn af samþykkt landsfundar flokksins um málskotsrétt forseta Íslands. "Fyrir mína parta kemur ekki til greina að gera hrossakaup um þetta á þá lund að slíkt ákvæði yrði tekið upp gegn því að málskotsréttur forsetans yrði afnuminn. Margir stjórnarliðar vilja afnema þennan rétt forseta. Ég lít svo á að með samþykkt landsfundar Samfylkingarinnar, sem tók beinlínis á þessu, sé illgerlegt fyrir mig að hnika frá því," segir Össur. Í stjórnmálayfirlýsingu landsfundarins frá því í maí segir meðal annars, að skilgreina þurfi stöðu og umboð forsetans skýrar í stjórnskipan landsins og standa vörð um málskotsréttinn. Jón Kristjánsson, formaður stjórnarskrárnefndar, hefur sagt um endurskoðunina að ræða þurfi kreppuna sem upp kom í tengslum við fjölmiðlalögin í fyrra og hugsanlega þjóðaratkvæðagreiðslu. "Þar skorti fordæmi og engin ákvæði að finna í stjórnarskránni um hvernig ætti að framkvæma slíka atkvæðagreiðslu." Birgir Ármannsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrárnefnd, segir að ákvæðið um synjunarvald forseta þarfnist endurskoðunar óháð því hvaða niðurstöðu menn vilji ná fram. "Það er ekki heppilegt að hafa ákvæði í stjórnskipunarlögum sem kallar á jafn ólíkar og umdeildar skýringar og fram komu á síðasta ári. Í þessari stjórnarskrárvinnu þurfa menn því að eyða þessum vafa," segir Birgir. Hann segir jafnframt að reglurnar verði að vera þannig að þær framkalli ekki deilur í samfélaginu um grundvallaratriði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×