Innlent

R-listinn gæti sprungið í dag

Örlög Reykjavíkurlistans gætu ráðist á viðræðufundi aðildarflokkanna sem hefst í dag. Á síðasta fundi lögðu framsóknarmenn fram tvær tillögur: annars vegar að Samfylkingin fengi þrjá borgarfulltrúa og borgarstjóra og Vinstri grænir þrjá og hins vegar að Samfylkingin fengi fjóra fulltrúa og Vinstri grænir tvo og borgarstjóra. Framsóknarflokkurinn fengi í báðum tilvikum tvo borgarfulltrúa. Samfylkingin féllst ekki á þær tillögur og hinir flokkarnir munu að öllum líkindum ekki samþykkja að ganga lengra. Vinstri grænir leggja höfuðáherslu á að jafnræði ríki á milli flokkanna og hafa fulltrúar þeirra í viðræðunum ekki umboð til viðræðna nema á þeim grunni. Tillaga frá Samfylkingunni sem gengur lengra mun aldrei uppfylla það skilyrði. Innan Framsóknarflokksins heyrast einnig þær raddir að ef óásættanleg tillaga komi fram muni þeir líta svo á að tillöguflytjandinn sé að slíta samstarfinu. Fulltrúar Samfylkingarinnar í viðræðunum gefa þó ekkert upp um það hvað þeir hyggjast leggja fram á fundinum. Allt eins gæti farið svo að þeir komi ekki með gagntilboð en vilji þess í stað að gengið verði frá málefnaáherslum áður en frekari ákvarðanir verði teknar um stóla og stöður. Innan Samfylkingarinnar vilja margir sjá málefnaáherslur áður en endanleg ákvörðun verður tekin um hvort halda eigi R-listasamstarfinu áfram eða bjóða fram undir merkjum Samfylkingarinnar. Bæði Vinstri grænir og Framsóknarflokkurinn vilja hins vegar ganga frá samkomulagi milli flokkanna sem fyrst og sérstaklega vilja framsóknarmenn fara að hefja kosningabaráttuna. Þeir telja það engan veginn ásættanlegt að draga viðræðurnar frekar á langinn og segja að þær séu nú þegar komnar fram yfir upphafleg tímamörk.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×