Innlent

Ríkisendurskoðun svarar Helga

Ríkisendurskoðandi sendi formanni fjárlaganefndar í gær bréf þar sem hann svarar í rauninni spurningum sem Helgi beindi í síðustu viku til formannsins. Þar áréttar ríkisendurskoðandi að hann hafi alls ekki verið að fjalla um hækkun á markaðsvirði hlutabréfa þegar hann sagði í minnisblaði sínu að enginn söluhagnaður hefði orðið hjá Skinney-Þinganesi við sölu á bréfum sínum í Hesteyri. Helgi hafði spurt hvort hagnaðurinn næmi 495 milljónum. Ríkisendurskoðandi segist hafa átt við mismuninn á söluverði og kaupverði bréfanna við viðskiptin. Nokkra athygli vekur að ríkisendurskoðandi vitnar í ræðu stjórnarformanns Skinneyjar frá aðalfundi félagsins á þessu ári. Þar sagði hann að reiknuð hlutdeild félagsins í hagnaði Hesteyrar hafi numið rúmum 90 milljónum fyrir skatt. "Mér finnst fagnaðarefni að Ríkisendurskoðandi skuli fjalla um hagnað Skinneyjar-Þinganess þótt hann mótmæli því harðlega að hagnaðurinn nemi 495 milljónum," segir Helgi Hjörvar um svarbréfið. "Nú virðist ekki lengur deilt um það hvort fyrirtækið hagnaðist verulega af þessum viðskiptum heldur aðeins hve mikið."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×