Innlent

Gæslukonur funda í næstu viku

"Við erum baráttukonur og ætlum að standa á okkar máli," segir Guðrún Guðjónsdóttir, forstöðukona á gæsluvellinum í Malarási í Reykjavík, en henni ásamt rúmlega tuttugu öðrum konum hefur verið sagt upp störfum þegar gæsluvöllum borgarinnar verður lokað 1. september næstkomandi. Fulltrúar gæslukvenna funduðu í gær með borgaryfirvöldum. Menntaráð Reykjavíkuborgar hefur ákveðið að loka gæsluvöllum borgarinnar og segja upp öllum starfsmönnum á gæsluvöllum. Í fundargerð menntaráðs frá 31. mars síðastliðnum kemur fram að gengið verði frá starfslokasamningum við núverandi starfsmenn gæsluvalla en einnig verði skoðaðir möguleikar á öðrum störfum fyrir þá sem þar starfa nú. Þetta segir Guðrún að hafi ekki verið gert. "Það er stór munur á því að segja fólki upp eða gera við það starfslokasamning. Auk þess hefur engri okkar verið boðin nein störf nema kannski að einni undanskilinni og við þetta ætlum við ekki að una," segir Guðrún. Birgir Björn Sigurjónsson, skrifstofustjóri á starfsmannaskrifstofu Reykjavíkurborgar, segir að ákveðið hafi verið að halda fund í gær að frumkvæði borgaryfirvalda til að finna jákvæða lausn á málinu sem upp er komið. "Við fórum yfir stöðu málsins og þetta var afar góður og málefnalegur fundur. Niðurstaða fundarins varð sú að við ætlum að boða fund með þeim starfsmönnum sem eiga í hlut næstkomandi miðvikudag og fara yfir réttarstöðu hvers og eins," segir Birgir. Hann segir að mikilvægt sé að tryggja þeim sem eiga í hlut atvinnu og Reykjavíkurborg ætli að beita sér fyrir því að þeir sem það kjósi fái störf við sitt hæfi. "Við göngum frá starfslokasamningum við þá sem vilja en mörg störf sem bjóðast fyrir þetta fólk og við myndum gjarnan vilja sjá það í okkar þjónustu," segir Birgir Björn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×