Innlent

Verið að fara yfir samninginn

Félagsmálaráðherra segir að verið sé að fara yfir lánasamning á milli Íbúðalánsjóðs og bankanna og vel geti verið að þar þurfi að skerpa einhverjar reglur. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, sagðist í fréttum Stöðvar 2 í gær vera alveg viss um að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir muni taka til skoðunar lán Íbúðarlánasjóðs til bankanna upp á 80 milljarða króna. Hann telur að farið verið yfir löggjöfina og þess gætt í framtíðinni að sjóðurinn geti ekki ráðstafað svo miklu fé án samráðs við stjórnvöld. Eins sagði Einar Oddur að almenn skynsemi hefði átt að segja stjórnendum sjóðsins að hafa samráð við ríkisstjórnina. Aðspurður hvað honum finnist um þessi ummæli segir félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, þau vera í takti við það sem hann sjálfur hafi sagt. Verið sé að fara yfir málin og komi fjármálaráðherra þar að. „Ég tel að Íbúðalánasjóður hafi fyllilega starfað innan þess ramma og þeirra laga og reglna sem honnum hafa verið sett. Það kann að vera í ljósi reynslunnar og í ljósi þessara miklu uppgreiðslna að það þurfi eitthvað að breyta þeim reglum og þeim ramma en við erum ekki komin að þeirri niðurstöðu,“ segir Árni. Hann kveðst ekki vita hvenær niðurstaða muni liggja fyrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×