Innlent

Framsókn ruggar bátnum

"Það hafa verið uppi raddir um að við séum skelkaðir og að við þorum ekki að fara einir fram. Þetta eru skilaboð til hinna flokkanna um hið gagnstæða," segir Þorlákur Björnsson, formaður kjördæmisráðs Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Ályktun flokksins frá því á föstudag hefur valdið sterkum viðbrögðum hinna flokkanna um helgina sem telja að með ályktuninni séu dagar R-listans senn á enda. Þorleifur Gunnarsson, sem situr í viðræðunefndinni fyrir Vinstri-græna, segir ályktunina ekki koma sér á óvart. "Framsóknarmenn í þessu kjördæmi hafa alltaf verið á þessari skoðun og þeir hafa alltaf verið á móti R-listanum," segir Þorleifur. Páll Halldórsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í viðræðunefndinni, segir að ákvörðun um framtíð R-listans hljóti að verða gerð opinber á næstu dögum. "Ég á von á því að þetta klárist núna einhvern tímann í kringum verslunarmannahelgi. Ég hef í sjálfu sér engin viðbrögð við þessari ályktun framsóknarmanna. Mér finnst eðlilegt að menn hugsi alla möguleika en þetta mun ekki dragast mikið lengur nema eitthvað sérstaklega nýtt komi upp á," segir Páll.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×