Innlent

Ályktun á að hvetja til uppgjörs

Framsóknarflokkurinn sér ástæðu til að senda þau skilaboð til borgarbúa og samstarfsflokka í R-listanum að hann, ekki síður en Samfylkingin, hafi þor og getu til að til að bjóða fram undir eigin nafni í næstu borgarstjórnarkosningum. Á fjölmennum aðalfundi félags Framsóknarmanna í Reykjavíkukjördæmi norður var samþykkt að hvetja forystu flokksins til að bjóða fram undir merkjum Framsóknarflokksins, náist ekki samkomulag um framboð R-listaflokkanna. Ályktunin felur einnig í sér skýr skilaboð til hinna R-lista flokkanna að Framsóknarflokkurinn hafi þor og getu til að fara fram einn og sér. Þorlákur Björnsson, formaður kjördæmasambands flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, segir að að það felist ekki hótun í ályktuninni  heldur sé verið að biðja menn um að ef uppúr slitni gerist það sem fyrst svo að hægt sé að undirbúa kosningar. Aðspurður um hvort að það beri vott um veikleika að stjórnmálaflokkar þurfi að taka það sérstaklega fram að þeir ætli að bjóða fram segir Þorlákur svo ekki vera því umræðan hefur verið á þá lund að Framsóknarflokkur þori ekki og því fannst þeim tímabært að leggja áherslu á að svo væri.  Þorlákur á einnig sæti í viðræðunefnd R-listaflokkanna sem reynt hefur að finna flöt fyrir áframhaldandi samstarfi. Hann segir að um eða eftir næstu helgi ætti að verða ljóst hvort Reykjavíkurlistinn starfi áfram í óbreyttri mynd. Alfreð Þorsteinsson, forseti Borgarstjórnar og oddviti Framsóknarmanna í borgarráði sagði í samtali við fréttastofu í morgun að ekki væri tímabært að reyna að spá fyrir um niðurstöðuna út úr atburðarrás síðustu vikna . Svona hefði þetta verið árum saman.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×