Innlent

Borgarstjóri bjartsýnn á R-lista

"Ég hef engar sérstakar áhyggjur af framboðsmálum R-listans. Það eru allir að vinna að heilum hug í þessum málum og hver flokkur að hugsa sinn gang," segir Steinunn V. Óskarsdóttir borgarstjóri um framboðsmál R-listans og ályktun Framsóknarflokksins í Reykjavík norður frá því fyrir helgi. "Hver flokkur er að skerpa sína sérstöðu ef að svo ólíklega vildi til að það slitnaði upp úr en ég held það séu afar litlar líkur á því. Ég held að fólk í þessum flokkum sé skynsamt fólk og við ættum að leyfa því að vinna sína vinnu í friði án utanaðkomandi afskipta," segir Steinunn. "Ég er enn bjartsýnn á að jákvæð niðurstaða fáist úr því starfi sem fer fram í viðræðunefndinni," segir Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í R-listanum. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um framboðsmál R-listans. Borgarfulltrúar Vinstri-grænna í R-listanum, þau Árni Þór Sigurðsson og Björk Vilhelmsdóttir, vildu ekki tjá sig um framboðsmál R-listans og vísaði Björk á fulltrúa Vinstri-grænna í viðræðunefnd R-listaflokkanna. "Við bíðum bara eftir því að viðræðunefndin kemur saman," sagði Árni Þór. Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi R-listans, sagði að hann væri bjartsýnn á framboðsmál R-listans. "Ég held það hafi ekkert breyst að undanförnu. Það skýrist á næstu vikum hvort af framboði R-listans verður," sagði Dagur. Aðspurður um hvort hann hefði trú á því að af framboði R-listans yrði sagði hann: "Já, ég geri ráð fyrir því að af því verði." Viðmælendur Fréttablaðsins í borgarstjórnarhópi R-listans telja að unnið sé að því hörðum höndum meðal kjörinna borgarfulltrúa að hafa áhrif til þess að skýra framboðsmálin en misjafn áhugi er meðal viðmælenda á það hvort þeir vilja að af samstarfinu verði. Ekki náðist í aðra borgarfulltrúa R-listans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×