Innlent

Eldfimar upplýsingar í könnun

Í ítarlegri lífskjararannsókn sem IMG Gallup framkvæmdi á Akureyri og á höfuðborgarsvæðinu í vor, að ósk bæjaryfirvalda á Akureyri, má lesa margvíslegar niðurstöður og ef svör eru samkeyrð má fá enn fleiri og nákvæmari upplýsingar. Margar gagnlegar og lítt umdeildar upplýsingar er að finna í niðurstöðunum sem bæjaryfirvöld á Akureyri geta notað við uppbyggingu bæjarins, bæjarbúum öllum til hagsbóta, en þar er einnig að finna upplýsingar sem sumir telja viðkvæmar og vakið hafa deilur á Akureyri. Þar á meðal eru upplýsingar sem bæjaryfirvöld á Akureyri lögðu ekki upp með að kanna sérstaklega en fylgja með í pakkanum sem bakgrunnsbreytur sem notaðar voru við rannsóknina. Ein slík bakgrunnsbreyta er spurning númer 58 en þar eru Akureyringar spurðir hvaða flokk eða lista þeir hefðu kosið í vor ef gengið hefði verið til kosninga á þeim tíma sem könnunin var framkvæmd. Í endanlegri skýrslu sem IMG Gallup afhenti bæjaryfirvöldum á Akureyri eru svör við þeirri spurningu keyrð saman við svör við öðrum spurningum og þá má meðal annars sjá að nær helmingur stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins á Akureyri er með 300 þúsund krónur eða meira í mánaðarlaun. Fjölskyldutekjur 60 prósenta fylgismanna Sjálfstæðisflokksins eru hærri en 550 þúsund krónur á meðan fjölskyldutekjur 8,6 prósenta stuðningsmanna Vinstri grænna eru hærri en 550 þúsund krónur. Fylgismenn Sjálfstæðisflokksins á Akureyri er frekar að finna á meðal þeirra sem búið hafa lengi á Akureyri á meðan stór hluti stuðningsmanna Samfylkingarinnar á fremur stutta búsetu á Akureyri að baki. Aðeins 5,6 prósent kjósenda Framsóknarflokksins á Akureyri hafa háskólapróf en 35,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins hafa slíkt próf. Hátt í þriðjungur kjósenda Samfylkingarinnar hefur einungis grunnskólapróf. Ýmsar fleiri slíkar upplýsingar má lesa úr rannsókninni, svo sem aldurs- og kynjasamsetningu fylgismanna flokkanna og í hvaða hverfum á Akureyri þeir búa. Bæjaryfirvöld á Akureyri hafa einnig í höndum sambærilegar upplýsingar varðandi íbúa höfuðborgarsvæðisins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×