Innlent

Jafnar fylkingar í borginni

R-listinn fengi 47 prósenta fylgi en listi Sjálfstæðisflokksins 48 prósent ef kosið yrði til borgarstjórnar nú. Þetta er niðurstaða nýrrar fylgiskönnunar sem Gallup hefur gert. Miðað við könnun síðastliðið haust tapar R-listinn um sex prósentustigum en Sjálfstæðisflokkurinn bætir öðru eins við sig. R-listinn tapar meirihluta sínum samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Hann fengi sjö menn kjörna en Sjálfstæðisflokkurinn átta. Fylgi Frjálslynda flokksins er um 5 prósent og kæmi hann ekki manni að. Munurinn á fylgi R-listans og Sjálfstæðisflokksins er lítill og telst ekki marktækur í könnuninni. Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi R-listans, segir ljóst nú sem oft áður að tvær álíka stórar fylkingar takist á um völdin í borginni. "Þetta er líklega ávísun á spennandi kosningar í borginni næsta vor." Guðlaugur Þór Þórðarson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir ánægjulegt að sjá sókn flokksins á flestum vígstöðvum. "Þetta endurspeglar málefnalega og mikla vinnu okkar undir stjórn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×