Erlent

Fordæma valdaránið í Máritaníu

Valdarán var gert í Vestur-Afríkuríkinu Máritaníu í gær. Nokkrir herforingjar hafa lýst því yfir að þeir hafi tekið völdin í sínar hendur til að binda endi á tveggja áratuga einræðisstjórn forsetans Maaouiya Ould Sid Ahmed Taya. Forsetinn flúði til nágrannaríkisins Níger. Allt er með kyrrum kjörum í höfuðborginni Nouakchott og virðist sem valdaránið hafi átt sér stað án nokkurra blóðsúthellinga. Herforingjarnir sögðu í útvarpsávarpi að þeir hygðust stjórna landinu næstu tvö árin en síðan yrðu haldnar frjálsar og lýðræðislegar kosningar. Sameinuðu þjóðirnar, Afríkusambandið og Bandaríkin hafa fordæmt valdaránið. Máritanía er íslamskt ríki og forsetinn fyrrverandi vakti reiði margra með því að stofna til sambands við Ísraelsríki, en Máritanía er aðeins eitt þriggja arabaríkja í heiminum sem það hefur gert.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×