Innlent

Júlíus Vífill ætlar fram

Júlíus Vífill Ingvarsson lýsti í gær yfir framboði í eitt af efstu sætunum á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Hann segir Reykjavík hafa orðið undir í samkeppni við nágrannasveitarfélögin. "Þeirri þróun þarf að snúa við. Ég vil beita mér fyrir því að Reykjavík verði fyrirmynd annarra sveitarfélaga og ávallt í forystu." Helstu stefnumál Júlíusar eru þróun íbúalýðræðis í Reykjavík, fjölgun valkosta í fræðslumálum og endurskipulagning á rekstri borgarinnar. "Það er ekki verkefni komandi kynslóða að hreinsa til eftir okkur eða þann slóðaskap sem R-listinn hefur skilið fjárhag borgarinnar eftir í." Júlíus fór í prófkjör fyrir kosningarnar árið 1998 og endaði þá í fjórða sæti, en hætti í borgarmálum eftir kjörtímabilið vegna anna. "Nú hefur fjölskyldufyrirtækið verið selt og ég hef betri kost á því að stjórna mínum tíma sjálfur eftir þörfum hverjum sinni."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×