Innlent

4000 tonna byggðakvóta úthlutað

Rúmlega fjögur þúsund tonna byggðakvóta verður úthlutað á næsta fiskveiðiári sem hefst þann fyrsta september. Rúmlega þrjú þúsund þorskígildistonnum verður úthlutað vegna hruns í skel- og innfjarðarrækjuveiðum. Sjávarútvegsráðherra kynnti reglugerðir vegna stjórnar fiskveiða á Akureyri í dag. Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra segir engar stórvægilegar breytingar í vændum á fiskveiðistjórnun með þeim reglugerðum sem kynntar voru í dag. Þetta séu hins vegar þær breytingar sem sjávarútvegurinn þurfi að búa við á næsta fiskveiðiári og leitast sé við að kynna sem mest af þeim í tíma áður en fiskveiðiárið byrji. Sá pottur sem sjávarútvegsráðuneytið hefur yfir að ráða til úthlutuna fiskveiðiheimilda stækkar á næsta fiskveiðiári en þá færast aflaheimildir úr krókaaflamarkskerfinu og frá Byggðastofnun yfir til ráðuneytisins. Ráðherra segir að engin aukning sé í úthlutun byggðakvóta. Þrjátíu og sjö sveitarfélög sóttu um byggðakvóta á næsta fiskveiðiári og fengu þrjátíu og tvö þeirra úthlutun. Ráðherra var spurður hvort Bíldudalur fengi úthlutað kvóta en stutt er síðan fiskvinnslufyrirtæki og stærsti atvinnurekandinn á staðnum lagði upp laupana. Árni sagðist gera ráð fyrir aukningu á Bíldudal sem hann sagði reyndar hluta af Vesturbyggð en sveitarfélögin sækja um. Kvótinn skiptist svo niður á byggðarlögin eftir aðstæðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×