Innlent

Telja hættu á mengunaróhöppum

Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hefur beint þeim tilmælum til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar að láta loka nú þegar vegaslóðum sunnan og suðvestan vatnsbólanna í Kaldárbotnum vegna hættu á mengunaróhöppum. Páll Stefánsson, starfsmaður heilbrigðiseftirlitsins, segir nefndina hafa farið í vettvangsferð í sumar og komist að því að umferð jeppa og mótorhjóla sé þarna mun meiri en reiknað var með. Ef óhapp verði sé hætta á olíumengun þótt áreiðanlega megi deila um hversu mikil hættan sé. Aðalatriðið sé að ekki megi taka neina áhættu í þessum efnum. Neytendur vatnsins verði að vita að allt sé gert til að halda því hreinu og tæru og því gangi ekki að hafa mikla umferð vélknúinna ökutækja í nánd við vatnsbólin. Bæjarráð Hafnarfjarðar hefur sent stjórn Vatnsveitu Hafnarfjarðar erindið til umsagnar og á Páll ekki von á öðru en að það verði samþykkt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×