Innlent

Kanna lögmæti innflutningsbanns

Lögfræðingar kanna lögmæti þess að landbúnaðarráðuneytið bannar innflutning á nautakjöti frá Suður-Ameríku þrátt fyrir að embætti yfirdýralæknis sjái ekkert athugavert við að slíkt kjötmeti rati í íslenska maga. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki fengist leyfi frá landbúnaðarráðuneytinu til að flytja inn nautakjöt frá Suður-Ameríku. Ástæðan er sögð sjúkdómavarnir þrátt fyrir að embætti yfirdýralæknis, sem er faglegur umsagnaraðili, sjái ekkert því til fyrirstöðu að það standi neytendum til boða. Embættið hefur meðal annars veitt jákvæða umsögn um innflutning á kjöti frá svæði í sunnanverðri Argentínu sem ávallt hefur verið laust við gin- og klaufaveiki en samt var þeirri umsókn einnig hafnað. Þá vekur athygli að við mat sitt styðst embætti yfirdýralæknis við reglugerð frá landbúnaðarráðuneytinu sem kveður á um þá alþjóðlegu gæðastaðla sem það á að styðjast við. Það virðist því sem ráðuneytið fari eftir öðrum og strangari stöðlum en það sjálft setur embætti yfirdýralæknis. Þau svör fengust hjá ráðuneytinu í dag að það séu ótvíræðir hagsmunir neytenda að standa vörð um sjúkdómavarnir. Ráðuneytið hefur hins vegar lagt blessun sína yfir innflutning nautakjöts frá Hollandi þrátt fyrir að upp hafi komið skæður gin- og klaufaveikifaraldur í Evrópu fyrir um fjórum árum og kjöt frá Nýja-Sjálandi hefur einnig staðið Íslendingum til boða. Á meðan lögfræðingar íslenskra kjötinnflytjenda velta því fyrir sér hvort grundvöllur sé fyrir málshöfðun vegna suðurameríska kjötsins má geta þess að Færeyingar geta keypt kílóið af slíku kjöti á 400 íslenskar krónur í Færeyjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×