Innlent

Meðbyr í baráttu samkynhneigðra

"Það þurfa að vera mjög sterk rök sem mæla með því að skrefið verði ekki stígið til fulls og ég tel að allar þær rannsóknir sem gerðar hafi verið bendi til þess að þau rök séu ekki til," segir Bjarni Benediktsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjarnefndar þegar hann var spurður hvort samkynhneigðir ættu að njóta réttinda til vígðrar hjónavígslu og ættleiðinga á við gagnkynhneigða. Hann telur löngu tímabært að bregðast við kröfum samkynhneigðra þó mörg mikilvæg skref hafi verið tekin á undanförnum árum. Jón Helgi Þórarinsson prestur í Langholtskirkju og formaður nefndar á vegum biskups, sem hefur til umræðu málefni samkynhneigðra innan þjóðkirkjunnar, segir að meðal presta ríkji almennur vilji fyrir því að rétta hlut samkynhneigðra. "Þó eru sumir innan kirkjunar sem vilja stíga varlega til jarðar í þessum efnum," segir Jón Helgi. Sigursteinn Másson varaformaður samtakanna '78 segir að nú sé aðeins spurningin hvort kirkjan eða löggjafavaldið verði fyrri til að stíga skrefið til fulls og veita samkynhneigðum rétt til vígðrar hjónavígslu. Hann bendir á að á Spáni þar sem löggjafavaldið hafi tekið frumkvæði í þessum málum hafi nú áunnist stuðningur meirihluta presta fyrir slíkum vígslum. Jón Helgi segir að kenningarnefnd á vegum kirkjunar muni skila áliti til biskups um það hvernig þjóðkirkjan geti orðið við ósk samkynhneigðra um formlega hjónavígslu en ekki er ljós hvenær það álit liggur fyrir. Hann segir að hinsvegar hafi réttur samkynhneigðra til ættleiðinga ekki verið mikið ræddur innan kirkjunar enn sem komið er. Gunnar Þorsteinsson, forstöðumaður Krossins, segist hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum með yfirlýsingar félagsmálaráðherra um síðustu helgi. Hann segir að um forréttindabaráttu sé að ræða en ekki jafnréttisbaráttu. "Til er fólk sem vill fá aðra afbrigðileika kynlífs viðurkennt, hvað verður þá um þeirra rétt?" spyr Gunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×