Innlent

Aðeins óljóst með sjálfstæðismenn

Allir þingflokkar á Alþingi eru fylgjandi því að samkynhneigðir njóti sömu réttinda og aðrir nema Sjálfstæðisflokkurinn sem ekki hefur tekið afstöðu til málsins. Þingflokksformaður Sjálfstæðismanna styður baráttu samkynhneigðra fyrir fullum mannréttindum til jafns við aðra. Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að flokkurinn væri fylgjandi auknum réttindum samkynhneigðra til fjölskylduþátttöku. Í samtali við fréttastofu sagði Guðrún Ögmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, ummæli félagsmálaráðherra um helgina styrkja enn frekar það að málin verði kláruð í haust þannig að allur réttindapakki samkynhneigðra fari í gegn. Það ætti því ekkert að vera því til fyrirstöðu að Samfylkingin styðji þessi mál. Að sögn Margrétar Sverrisdóttur, framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins, eiga samkynhneigðir að njóta fullra mannréttinda, þar á meðal rétturinn til frumættleiðinga, samkvæmt stefnuskrá flokksins. Þá sagði Steingrímur J Sigfússon vinstri - græna vera fylgjandi fullu jafnrétti, vilja ganga alla leið og klára málið. Því má einnig vænta stuðnings beggja flokkanna þegar kemur að því að taka málið upp á þingi. Einar Kristinn Guðfinnsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, gerir ekki ráð fyrir að þingflokkurinn taki afstöðu til málsins fyrr en á þingi í haust. Aðspurður um ummæli Árna Magnússonar um helgina segir Einar þau eftirtektarverð og hann hafi sjálfur lengi verið þeirrar skoðunar að það eigi að tryggja full lagaleg réttindi samkynhheigðra hér á landi. Það var þó ekki annað að heyra á Einari en að hann ætti von á farsælli niðurstöðu í ríkisstjórninni. „Við höfum alltaf verið menn til þess að koma okkur saman og ná niðurstöðu um mál í þessu stjórnarsamstarfi,“ segir hann og segist aðspurður ekki geta svarað fyrir hönd flokksins í þessu máli vegna þess að það hafi ekki komið inn á borð þingflokksins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×