Innlent

Vill hækka fjármagnstekjuskatt

"Mér finnst vel koma til greina að hækka skatta á fjármagnstekjur um nokkur prósentustig en það þarf að fara gætilega með hversu mikið skatturinn verður hækkaður því hækkanir mega ekki ýta undir að fjármagn fari úr landi, " segir Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Fyrirhugaðar breytingar á skattkerfinu hafa nú verið ræddar meðal stjórnarflokkanna og má búast við því að tillögur þess efnis verði ræddar í þingflokkunum þegar þeir koma saman á næstu vikum til að ræða fjárlagagerð. Nokkuð skiptar skoðanir eru innan þingflokka stjórnarflokkanna um hvaða áherslur eigi að draga hvað skattalækkanir varðar en viðmælendur Fréttablaðsins innan þingflokkanna telja að mest sátt náist um lækkun virðisaukaskatts á matvæli. Hjálmar segir að búast megi við töluverðum tíðindum hvað skattamál varðar á næstunni: "Ég tel að það sé í raun allt saman undir, hvort sem er lækkun á tekjuskatti eða lækkun á þeim hluta virðisaukaskatts sem leggst á matvæli. Það þarf að meta þessa hluti í tengslum við aðra þætti og ekki síst velferðarkerfið. Við heyrum stöðugar kröfur um aukin útgjöld til hins og þessa, til dæmis skólamála, heilsugæslunnar og svo framvegis. Það þarf að finna jafnvægi á milli þessara hluta," segir Hjálmar. Hann segist vera sammála Einari K. Guðfinnssyni, þingflokksformanni sjálfstæðismanna, um afnám vaxtabótakerfisins. "Ég tek undir hans orð að það megi taka það til endurskoðunar. Stíga þarf varlega til jarðar. Margir hafa fjárfest í íbúðum og í sínum áætlunum hefur fólk gert ráð fyrir vaxtabótum og við megum aldrei koma í bakið á því fólki," segir Hjálmar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×