Innlent

Mikið rætt um Strætó í borgarráði

Umræður um nýtt leiðakerfi Strætó voru fyrirferðarmiklar á fundi borgarráðs í dag að því er fram kemur í tilkynningu aðstoðarmanni borgarstjóra. Forstjóri Strætós kom á fundinn og gerði grein fyrir innleiðingu nýja kerfisins og svaraði spurningum borgarráðsfulltrúa. Meirihluti Reykjavíkurlistans beindi því sérstaklega til stjórnar Strætó bs. í bókun á fundinum að hún leitaði leiða til að lengja þjónustutíma til miðnættis þannig að komið yrði til móts við þarfir vaktavinnufólks. Jafnframt yrðu gagnlegar ábendingar og reynsla á fyrstu vikum leiðakerfisins nýtt til að sníða af vankanta í tímatöflum og á leiðakerfinu. Þá samþykkti borgarráð fyrir sitt leyti að veita strætisvögnum forgang í umferðinni um ákveðna kafla Lækjargötu og Miklubrautar en endanleg ákvörðun um það liggur hjá lögreglustjóranum í Reykjavík. Enn fremur lögðu sjálfstæðismenn fram tillögu um að fram færi ítarleg úttekt á nýja leiðakerfinu, m.a. vegna kvartana frá almenningi, en sú tillaga var felld. Auk málefna Strætós var rætt um fyrirhugaða byggingu nýs bíóhúss við Egilshöllina, en eigi áformin að ganga eftir kallar það á þá breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur að byggingasvæði í kringum mannvirkið verði stækkað. Borgarráð samykkti í dag að auglýsa breytinguna. Verður það gert á næstu dögum og þá gefst íbúum kostur á að kynna sér breytinguna frekar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×