Innlent

Útvegsmenn geti ekki farið í mál

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, telur útilokað fyrir útvegsmenn að fara í mál við íslensk stjórnvöld til að fá svonefndan byggðakvóta afnuminn, sem þeir segja að skerði sinn eigin kvóta. Kristinn rifjar upp á heimasíðu sinni að útvegsmenn segist eiga þær veiðiheimildir sem notaðar séu í byggðakvótann og það jafngilti eignaupptöku að taka byggðakvótann af þeim og deila til byggðarlaga. Slíkt hljóti að brjóta gegn eignaréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Kristinn bendir á að löggjöfin sé ótvíræð. Veiðiheimildum í heild sé úthlutað til eins árs í senn og myndi ekki eignarrétt. Það gerir byggðakvótinn reyndar ekki heldur hjá þeim sem njóta hans hverju sinni. Kristinn bendir enn fremur á að Alþingi geti hvenær sem er breytt þeim lögum enda myndi veiðiheimildir eða kvótar sem hafa verið keypt engan eignarrétt, aðeins rétt til að nýta heimildirnar. Því geti eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar ekki fært mönnum það sem þeir eiga ekki. Við kaup á kvótum sé útgerðarmönnum ljóst að þeir séu ekki að kaupa eign og taki þannig áhættu og hljóti að meta hana við ákvörðun á kvótaverðinu hverju sinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×