Innlent

Samvinna um afnám niðurgreiðslna

Danir og Íslendingar ætla að vinna sameiginlega að afnámi niðurgreiðslna í sjávarútvegi, segir Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra. Hann segir mikilvægt að þjóðirnar samhæfi krafta sína á alþjóðlegum vettvangi. Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra og Hans Christian Schmidt, matvælaráðherra Danmerkur, funduðu um stöðu greinanna innan landanna í dag. Í því samhengi var rætt um niðurgreiðslur í sjávarútvegi og að þjóðirnar myndu vinna að afnámi þeirra innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Ráðherrarnir voru sammála um að taka þyrfti sérstaklega á ólöglegum fiskveiðum á alþjóðlegum hafsvæðum og voru einnig sammála um að samhæfa krafta sína á alþjóðlegum vettvangi í þeim tilgangi að koma í veg fyrir veiðar af þessu tagi. Þá ræddu ráðherrarnir um stöðu mála er snúa að kvótasetningu kolmunna, veiðum á norsk-íslensku síldinni og loðnuveiði í íslensku lögsögunni. Árni gerði sérstaklega grein fyrir afstöðu íslenskra stjórnvalda í Svalbarðamálinu en Evrópusambandið hefur einnig mikilla hagsmuna að gæta þar. Ráðherrarnir voru sammála um að ekki kæmi til greina að beita alþjóðlegri fiskveiðistjórnun á miðum einstakra ríkja heldur væri svæðisbundin stjórnun mun líklegri til að skila árangri. Árni segir mikilvægt að þjóðirnar standi saman og að þær séu sammála á flestum sviðum. Þær meginreglur sem alþjóðlegum fiskveiðum sé stjórnað eftir séu samþykktar hjá alþjóðlegum stofnunum sem bæði Íslendingar og Danir eigi aðild að. Þess vegna skipti máli að það sé skilningur á milli þjóða um það hvernig standa eigi að málum þannig að menn geti komist að sameiginlegri niðurstöðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×