Innlent

Koma ekki á óvart

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir fréttir af endalokum R-listans síst orðum auknar og ekki koma á óvart. Björn gagnrýnir R-listann harðlega í pistli á heimasíðu sinni. "R-listinn er hættur að snúast um annað en útdeilingu á völdum, hugmyndafræðilegt inntak hans er ekkert og stjórn hans á málefnum Reykjavíkurborgar er sorglegt dæmi um, hvernig fer, þegar hver höndin er upp á móti annarri og allir eru með hugann við að skara eld að eigin köku," segir Björn í pistli sínum. Björn segir nú komið að þeim punkti að það að taka ekki af skarið skaði trúverðugleik allra sem láti sem það sé unnt að blása nýju lífi í R-listann. "Ég er mest hissa á því hversu lengi R-lista flokkarnir telja sér sæma að halda þessum pólitíska hráskinnaleik áfram," segir Björn. "Björn Bjarnason hefur skrifað eins um R-listann síðan listinn varð til, á meðan hafa borgarbúar hins vegar veitt okkur traust," segir Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi R-lista. Stefán Jón segir enn fremur engan halda öðru fram en að brugðið geti til beggja vona um framtíð R-listans. Málið sé komið til félaganna í flokkunum sem að R-listanum standa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×