Innlent

Atvinnulífið fram yfir þingsæti

Ásgeir Friðgeirsson varaþingmaður tekur störf sín fyrir íslensk fyrirtæki á alþjóðavettvangi fram yfir þingsetu. Hann hefur afþakkað að setjast á þing fyrir Samfylkinguna. Ásgeir átti að taka þingsæti Guðmundar Árna Stefánssonar sem hættir þingmennsku um næstu mánaðamót þegar hann gerist sendiherra í Stokkhólmi. Í síðustu alþingiskosningum, vorið 2003, hlaut Samfylkingin fjögur þingsæti í Suðvesturkjördæmi og varð Ásgeir þar með fyrsti varaþingmaður Samfylkingarinnar í því kjördæmi. En hann vill ekki sæti Guðmundar Árna, hann vill áfram starfa að útrás íslenskra fyrirtækja og segist telja að hann komi að meira að gagni á þeim vettvangi. Veturinn 2003 - 2004 settist Ásgeir Friðgeirsson á þing svo að hann veit af hverju hann er að missa. „Ég tel að það sem mun trúlega móta íslenskt samfélag hvað mest á næstu árum er einmitt framrás íslensks atvinnulífs á alþjóðamarkaði og þess vegna finnst mér það mjög áhugvert verkefni að taka þátt í því. Íslensk stjórnmál eru að sjálfsögðu áhugaverð fyrir sinn hatt enda eru vonandi spennandi tímar fram undan með tveimur kosningum en ég stóð frammi fyrir vali og varð að velja og það er ánægjulegt að eiga góðra kosta völ í lífinu,“ segir Ásgeir. Aðspurður hvort hann sé þá alfarið hættur að starfa fyrir Samfylkinguna segir Ásgeir svo ekki vera. Hann vonist til þess að fá að taka þátt í störfum Samfylkingarinnar og hann geri sér vonir um að geta komið að einhverju liði við mótun stefnu flokksins í atvinnumálum. Valdimar L. Friðriksson tekur sæti Guðmundar í haust en hann starfar sem framkæmdastjóri ungmennafélagsins Aftureldingar í Mosfellsbæ. Hann sat meðal annars á þingi í forföllum Katrínar Júlíusdóttur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×