Innlent

Blæs á sögusagnir um klofning

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, blæs á sögusagnir um að hreyfingin í Reykjavík sé að klofna. Félagsfundur Vinstri - grænna í Reykjavík verður haldinn í kvöld þar sem ákveðið verður hvort vinstri - grænir vilji halda R-listasamstarfinu áfram. Ekki eru taldar miklar líkur á því að hreyfingin vilji áframhaldandi samstarf og því verði ákveðið að bjóða fram sér fyrir borgarstjórnarkosningarnar á næsta ári. Aðspurður hvort hann sé hræddur um að vinstri - grænir í Reykjavík muni klofna ef niðurstaðan verður sú að hreyfingin dragi sig út úr R-listasamstarfinu segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, að hann sé það alls ekki. Það hafi einkennt framgöngu vinstri - grænna í málinu að þar á bæ hafi málin verið unnin lýðræðislega og félagslega og bæði stjórn félagsins, viðræðunefnd og borgarfulltrúar flokksins hafi sótt skýrt umboð til almennra félagsfunda eins og þess sem halda eigi í kvöld. Þó svo að menn kunni að hafa mismunandi skoðanir og mat á stöðunni hafi menn staðið saman um þá stefnu sem ákveðin hafi verið. Hann hafi því engar áhyggjur af klofningi og telur að menn ættu að gæta þess í einhverri taugaveiklun og kjaftagangi að fara ekki fram úr sér. Fréttastofan sagði frá því í gær að þreifingar væru hafnar um framhald á stjórnarsamstarfi í borginni án þátttöku vinstri - grænna en með frjálslyndum og óháðum. Inn í þetta nýja R-listassamstarf kæmu enn fremur ýmsir fulltrúar Vinstri - grænna sem myndu kljúfa sig úr flokknum. Spurður hvernig honum lítist á þessar hugmyndir segir Steingrímur að hann hafi enga skoðun á því á meðan um sé að ræða orðróm og sögusagnir. Vinstri - grænir hafi talið að þeir væru í alvöru viðræðum á heiðarlegum grundvelli um það hvort kosningabandalag flokkanna þriggja gæti haldið áfram á sama grunni og það hefur verið. Það hafi verið vilji til þess af hálfu vinstri - grænna að láta reyna á það til þrautar en ekki hafi náðst samkomulag um slíkt. Það sé þá allt annað mál ef menn ætli að búa til nýtt samstarf á nýjum grunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×