Innlent

R-lista slitið á átakafundi

Vinstri grænir slitu R-listasamstarfinu á átakafundi í gærkvöld og ákváðu að bjóða fram undir eigin merkjum í borgarstjórnarkosningunum næsta vor. Tillaga þessa efnis var samþykkt með Miklar umræður urðu á fundinum og sá fundarstjóri ástæðu til að biðja menn að sýna kurteisi og gæta virðingar vegna óheppilegs orðavals eins fundarmanna í ræðupúlti. Tvær tillögur um dagskrárbreytingu voru bornar upp. Þegar þrettán félagsmenn voru enn á mælendaskrá var stungið upp á því að þegar yrði gengið til atkvæða milli tveggja tillagna um hvernig skyldi staðið að framboðsmálum. Það var samþykkt og þegar gengið til atkvæða. Stjórn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík lagði fram tillögu um að hafinn yrði undirbúningur að framboði í eigin nafni fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Annar borgarfulltrúa flokksins, Árni Þór Sigurðsson, lagði áherslu á að þessi leið yrði farin. "Ég lít svo á að Reykjavíkurlistinn hafi ekki verið stofnaður til að vera eilíft fyrirbæri," sagði Árni Þór. Hinn borgarfulltrúinn, Björk Vilhelmsdóttir, lagði í máli sínu áherslu á að með því að slíta R-listasamstarfinu væru Vinstri grænir að bjóða frjálshyggjunni heim sem raunverulegum valkosti á móti félagshyggjunni, hættan væri meiri en nokkru sinni áður að Sjálfstæðisflokkurinn tæki völdin í borginni. Hún lagði fram tillögu um að Vinstri grænir tækju þátt í prófkjöri með Samfylkingu og Framsóknarflokki fyrir áframhaldandi framboð Reykjavíkurlistans. Þetta er sama tillaga og ákveðið hafði verið að leggja fram á fundum Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×