Innlent

Náðu ekki saman um stjórnarskrá

Írökum mistókst að semja texta stjórnarskrár sinnar fyrir 15. ágúst eins og þeir höfðu einsett sér. Þeir ætla að reyna til þrautar að ná samkomulagi fyrir 22. ágúst. Á miðnætti rann út fresturinn til að semja stjórnarskrá án þess að sátt næðist um inntak hennar. Íraksþing kom saman seint í gærkvöld, eftir að fundi þess hafði verið frestað fyrr um daginn, og ákvað að veita leiðtogum sjía, súnnía og Kúrda vikufrest til viðbótar. Leiðtogarnir höfðu raunar náð bráðabirgðasamkomulagi um nokkur mikilvæg atriði í gær, til dæmis hvernig tekjum af olíusölu yrði ráðstafað og hvert nafn landsins yrði. Eins og margir höfðu spáð fyrir um tókst hins vegar ekki að leysa ágreining um hvort skipta ætti Írak upp í sambandsríki, stöðu kvenna, hlutverk íslams og hvort Kúrdar ættu að fá enn meira sjálfstæði. Þeir höfðu lagt til að Kúrdistan yrði hluti af Írak næstu átta árin en þá yrði staða héraðsins endurskoðuð. Þessu lögðust hins vegar sjíar og sérstaklega súnníar gegn. Atburðarás síðustu daga þykir sýna að öll þjóðarbrotin í Írak vilja raunverulega ná sem víðtækastri sátt um stjórnskipun landsins. Hins vegar sýnir hún jafnframt að enn ríkir sundrung á meðal þjóðarinnar um hvernig haga beri stjórn Íraks í framtíðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×