Innlent

Samstarf ekki úr sögunni

Eftir fund Reykjavíkurfélags Vinstri grænna í fyrrakvöld eru yfirgnæfandi líkur á að stjórnmálaflokkarnir í Reykjavík bjóði hver fram sinn lista í borgarstjórnarkosningunum í maí á næsta ári. "Við ljúkum kjörtímabilinu með reisn og sóma og ég á ekki von á að eftirmál verði af þeirri ákvörðun að hefja undirbúning að framboði flokksins," segir Árni Þór Sigurðsson, Vinstrihreyfingunni - grænu framboði og borgarfulltrúi R-listans. Árni Þór og Stefán Jón Hafstein Samfylkingunni og borgarfulltrúi R-listans eru sammála um að sjálfstætt framboð flokkanna þurfi alls ekki að verða til að þeir færi Sjálfstæðisflokknum stjórn borgarinnar á silfurfati. "Þvert á móti gætu sjálfstæð framboð félagshyggjuflokkanna haft gagnstæð áhrif," segir Stefán Jón. Fulltrúaráð Samfylkingarinnar í Reykjavík kemur saman til fundar í kvöld til að fjalla um stöðuna sem komin er upp í samstarfi R-listaflokkanna. Félagsfundur verður um málið hjá Framsóknarmönnum í næstu viku. Alfreð Þorsteinsson, Framsóknarflokki og borgarfulltrúi R-listans, lýsir vonbrigðum með þá ákvörðun Vinstri grænna að bjóða fram í eigin nafni fyrir borgarstjórnarkosningarnar. "Ég tek eftir því að formaður Sjálfstæðisflokksins er sá sem fagnar ákvörðun Vinstri grænna einna mest. Það er athyglisvert að Sjálfstæðisflokknum hefur aldrei tekist að leggja R-listann í kosningum. Fari svo að hann geri það nú verður það vegna ágreinings innan R-listans." Alfreð segir ótímabært að ræða stöðu Framsóknarflokksins í borginni enda sé enn verið að skoða möguleika á samstarfi án þátttöku Vinstri grænna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×