Innlent

Vill ekki flugvöll á Löngusker

"Þeir hugsa nú bara um sjálfa sig þessir kappar og hugsa ekki um aðra," segir Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, og líst ekkert á hugmyndir um byggingu nýs flugvallar á Lönguskerjum sem borgaryfirvöld hafa rætt um við fulltrúa FL Group og dótturfélags þess, Flugfélags Íslands. "Þetta verður rándýrt en allt sem viðkemur Reykjavík og R-listanum er þannig að peningar skipta ekki máli. Það skiptir ekki máli hvort það sé milljarður eða tíu eða hundrað, það er talað um þetta eins og þetta séu karamellur," segir Gunnar. Yrði flugvöllur reistur á Lönguskerjum yrði það væntanlega til að höfnin í Kópavogi yrði innlyksa. Það líst Gunnari ekki á og segir að bætur þyrftu að koma í staðinn. "Þeir myndu sjálfsagt fara létt með að borga þær. Þá munar væntanlega ekkert um að slengja út einum eða tveimur milljörðum." "Mér finnst þetta afskaplega gleðilegt því ég setti hugmyndir fram um flugvöll á landfyllingu á Lönguskerjum árið 1974," segir Trausti Valsson, arkitekt og skipulagsfræðingur, um viðræðurnar. "Þarna eru mikil sker sem eru um tveggja kílómetra löng eða álíka og flugbraut. Það er sáralítið sem þyrfti að fylla upp í þá flugbraut sem myndi liggja algjörlega í stefnu fjarðarins og aðflugið væri utan frá sjó. Svo yrði hin flugbrautin í áttina frá Fossvogi og þá í sjó líka. Svo má nefna að þar sem flugvöllurinn yrði á landfyllingu úti á sjó þá yrði hávaðasvæði og öryggissvæðið yfir sjónum þannig að hávaðamengun yrði lítil sem engin," segir Trausti. Hann segir að honum þyki ljóst að kostnaður við slíkan flugvöll yrði langt um minni en það verð sem fengist fyrir landsvæðið þar sem núverandi flugvöllur er.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×