Innlent

Bætur fyrir Kópavogshöfn

Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi R-listans og formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar segist líta svo á að Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri Kópavogs sé til viðræðu um nýjan flugvöll höfðuborgarsvæðisins á Lönguskerjum. Gunnar sagði meðal annars í samtali við Fréttablaðið í gær að nýr flugvöllur á Lönguskerjum yrði til þess að Kópavogshöfn yrði innlyksa og fyrir það yrðu að koma bætur. "Ef maður skilur stóryrðin frá sýnist mér Gunnar vera með mikilvæga og athyglisverða yfirlýsingu um að bæjaryfirvöld í Kópavogi séu til viðræðu um bætur fyrir Kópavogshöfn verði hún innlyksa vegna flugvallargerðar á Lönguskerjum," segir Dagur. Hann kveðst ekki vita hvort útfærslan á flugbrautum þar komi í veg fyrir skipaumferð um Kópavogshöfn en ekki sé útilokað að svo verði. "Fjölmörgum spurningum er enn ósvarað, en ég bendi einnig á að bæjarstjórinn á Álftanesi kveðst hlynntur flugvelli á Lönguskerjum." Félög í flugrekstri hafa gefið til kynna að þau vilji helst hafa starfsemina áfram á núverandi stað í Vatnsmýrinni en eru þó ekki andsnúin því að skoða nýjar hugmyndir. Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Flugmálastjórnar, segir að ef af nýjum flugvelli verði þurfi að setja gerð hans í útboð á evrópska efnahagssvæðinu. "Nú er starfandi nefnd á vegum samgönguráðuneytis og Reykjavíkurborgar um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Ef niðurstaða yfirvalda eftir þá vinnu verður að byggja nýjan flugvöll í eða við Reykjavík yrði að setja slíka framkvæmd í útboð á evrópska efnahagssvæðinu. Við erum bundin af alþjóðlegum samþykktum um gerð flugvalla, meðal annars reglum og stöðlum Alþjóðlegu flugmálastofnunarinnar og Flugmálastjórn myndi koma að því," segir Heimir. Hann segir að Flugmálastjórn hafi ekki gert neinar rannsóknir á flugvallarstæði á Lönguskerjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×