Innlent

Spuni í kollinum á Degi

"Sjálfstæðisflokkurinn mun alls ekki selja Orkuveituna og engin umræða hefur farið fram um það innan borgarstjórnarflokksins," segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík um yfirlýsingar Dags B. Eggertssonar í viðtali í Fréttablaðinu í gær. Þar sagði Dagur marga óttast að flokkurinn gæfi vinum sínum Orkuveituna. "Þetta er bara spuni í kollinum á Degi eins og svo margt annað." Vilhjálmur segir Orkuveituna eiga að selja borgarbúum vatn og rafmagn á sem lægstu verði og þetta sé líka spurning um öryggisatriði. Eftirsjá verður þó að Degi sem hafi verið frískur og hugmyndaríkur í borgarmálaumræðunni að sögn Vilhjálms. "Ég hef verið ósammála flestu, sérstaklega mörgum afleitum breytingum á stjórnsýslu borgarinnar, en hann hefur þó í það minnsta verið að reyna." Hann gerir þó lítið úr því að Dagur hafi verið óháður borgarfulltrúi. "Hann hefur ekki verið óháðari en svo að hann hefur greitt atkvæði með R-listanum í hverju einasta máli. Hann er ekkert óháðari en til að mynda Alfreð Þorsteinsson og Stefán Jón Hafstein."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×