Erlent

Nýr formaður Vestnorræna ráðsins

Henrik Old, þingmaður á færeyska lögþinginu, var í gær kosinn nýr formaður Vestnorræna ráðsins á fundi þess sem fram fer á Ísafirði og lýkur í dag. Old tekur við formannsstarfinu af Birgi Ármannssyni þingmanni. Í ræðu sem Old hélt þegar hann tók við formannsstarfinu lagði hann áherslu á að ráðið væri mikilvægur samstarfsaðili í vestnorrænum málum og að vestnorrænar þjóðir yrðu að standa saman og vera sammála á þeim sviðum sem hagsmunir þeirra færu saman. Henrik Old er menntaður sem togaraskipstjóri. Hann var kosinn á Lögþing Færeyja í kosningunum árið 1984 og er þar fulltrúi jafnaðarmanna. Auk Henriks eru fulltrúar í nýju forsætisnefndinni Jonathan Motzfeldt, formaður grænlenska lögþingsins, varaformaður, og Birgir Ármannsson alþingismaður, annar varaformaður ráðsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×