Innlent

Mótmælir harðlega gjaldskrárhækkun

Stjórn Reykjavíkurfélags Ungra vinstri grænna hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem skorað er á borgaryfirvöld í Reykjavík að draga til baka ákvörðun um gjaldskrárbreytingu á leikskólum borgarinnar. Þar segir að það sé með öllu óásættanlegt að fjölskyldur þar sem annað foreldri stundi nám verði með þessari breytingu fyrir verulegri útgjaldaaukningu, en sú aukning nemi allt að 81.180 krónum á ársgrundvelli. Ungir vinstri grænir segja að með þessu sé verið að ganga þvert gegn yfirlýstri stefnu borgaryfirvalda um að gera Reykjavíkurborg að fjölskylduvænu samfélagi og það megi teljast í hæsta máta óeðlilegt að Reykjavíkurlistinn, sem að kenni sig við félagshyggju, standi á þennan hátt að málum. Í ályktuninn segir enn fremur að það sé til skammar fyrir borgaryfirvöld ef þessi áform nái fram að ganga. Stjórn Ungra vinstri grænna í Reykjavík mótmæli slíkum vinnubrögðum harðlega og hvetji borgaryfirvöld til að endurskoða tafarlaust þessar breytingar. Tillaga Alfreðs Þorsteinssonar, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, um að umrædd gjaldskrárhækkun leikskólanna verði dregin til baka verður tekin fyrir á fundi borgarráðs á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×