Innlent

Staða Íbúðalánasjóðs könnuð

MYND/E.Ól
Félagsmálaráðherra hefur skipað sex manna nefnd sem mun á næstu vikum kanna stöðu og hlutverk íbúðalánasjóðs. Verður meðal annars skoðað hvort raunhæft sé að gera sjóðinn að heildsölubanka. Árni Magnússon félagsmálaráðherra hefur falið sex manna nefnd að skoða hvort og þá hvernig breytingar verði gerðar á starfsemi Íbúðalánsjóðs. Árni segir að í ljósi breyttra aðstæðna á húsnæðislánamarkaði á undanförnu misserum hafi hann farið þess á leit við bæði starfsmenn ráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs ásamt utanaðkomandi ráðgjöfum að fara yfir starfsemi sjóðsins og að þeir kanni með hvaða hætti honum verði best kleift að uppfylla meginmarkmið stjórnvalda sem sé að allir landsmenn njóti áfram hagkvæmustu kjara húsnæðislána. Nefndina skipa sex menn, tveir menn frá félagsmálaráðuneytinu, tveir frá Íbúðalánasjóði og tveir ráðgjafar sem starfað hafa með sjóðnum. Aðspurður hvort ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu sammála um framtíðarhlutverk sjóðsins segir Árni að samkomulag sé um það að það sé í hæsta máta eðlilegt og nauðsynlegt að fara yfir stöðuna. Hann telji að það sé heldur enginn ágreiningur um það að meginmarkmiðin vilji menn uppfylla, þ.e. að allir njóti hagkvæmustu kjara á húsnæðislánum. Til þess séu ýmsar og ólíkar aðferðir en þær eigi alveg eftir að ræða. Aðspurður hvort sjálfstæðismenn vilji meiri breytingar á sjóðnum en framsóknarmenn segir Árni að því verði þeir að svara. Hann telji sjálfur nauðsynlegt að reka einhvers konar opinberan húsnæðislánasjóð og tryggja með eihverjum hætti, hvort sem það verði gert nákvæmlega eins og það sé gert núna eða með einhverjum öðrum hætti, að meginmarkmiðin verði uppfyllt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×