Innlent

Áhyggjur af manneklu á leikskólum

Samþykkt var samhljóða á fundi borgarráðs, sem lauk eftir hádegi í dag, að hætta við að hækka leikskólagjöld hjá börnum námsmanna. Eins var rædd mannekla á leikskólum borgarinnar þar sem allir borgarfulltúrar lýstu yfir miklum áhyggjum yfir stöðunni. Foreldrar barna í leikskólanum Klettaborg í Grafarvogi verða að vera með börn sín heima tvo daga næstu tvær vikurnar þar sem ekki hefur tekist að manna í fjögur stöðugildi. Lilja Eyþórsdóttir leikskólastjóri segir nú þegar um helming foreldra hafa skráð frídaga fyrir börnin sín og að flestir hafi fengið það sem best hentaði í stöðunni. Lilja segir meiri hreyfingu vera á starfsfólki nú en áður enda sé meira framboð á vinnu. Þá segir hún leikskólana standa illa að vígi vegna lágra launa og nánast engra möguleika á aukavinnu. Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi R-listans, sagði í samtali við fréttastofu Bylgjunnar að hann harmaði þetta ástand en hann sæi engar lausnir í sjónmáli. Hann sagði þó að tekist hefði að ráða fólk til starfa á leikskólana síðustu daga og væru vonir bundnar við að sú þróun héldi áfram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×