Innlent

Vilja skýrslu dregna til baka

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks segja Reykjavíkurborg hafa greitt 68 til 73 milljónum króna of mikið þegar Stjörnubíósreitur var keyptur af Jóni Ólafssyni athafnamanni árið 2002. Þeir segja "rangar forsendur og óvönduð vinnubrögð" í skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að kaupverðið væri eðlilegt. "Ég tel alveg ljóst eftir okkar athuganir og yfirferð með sérfræðingum að greitt hafi verið algjört yfirverð, enda urðu strax ýmsir fasteignasalar til að benda okkur á það," segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna. Hann gagnrýnir sérstaklega að í skýrslu innri endurskoðunar hafi verið miðað við verð fasteigna árið 2003 þrátt fyrir að kaupin hafi átt sér stað árið 2002, auk fleiri atriða. "Við höfum krafist þess að skýrslan verði dregin til baka og leiðrétt, eða okkur ella svarað með rökum." Kjartan segir hafa verið gagnrýnt strax við stofnun innri endurskoðunar borgarinnar að embættið heyrði ekki undir borgarráð og borgarstjórn, heldur undir borgarstjóra beint. "Í flestum fyrirtækjum og stofnunum heyrir innri endurskoðun beint undir stjórn. Vinnubrögðin í þessu máli vekja því miður þær spurningar hjá manni hvort borgarstjóri hafi þarna pantað álit og komist upp með það," segir hann. "Það sem sjálfstæðismenn létu frá sér fara í garð embættismann hjá Reykjavíkurborg í bókun sinni í borgarráði er algjörlega fordæmislaust. Þeir efast um dómgreind hans og gefa í skyn að hann lúti pólitískum skipunum frá mér," segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri og telur sjálfstæðismenn hafa blindast af pólitískum ásetningi um að ná sér niðri á Reykjavíkurlistanum. "Þeir fengu úttekt óháðs endurskoðanda sem komst að þeirri niðurstöðu að verðið, sem þeir töldu of hátt, hafi verið fullkomnlega eðlilegt." Hún segist ekki muna eftir því að áður hafi verið gegnið fram með slíku offorsi í borgarstjórninni. Steinunn sagði sjálfstæðismenn ekki hafa fundað með Ágústi Þorkelssyni innri endurskoðanda áður en þeir gerðu sínar athugasemdir, líkt og þeir hafi gefið í skyn. "Það er bara skotið fyrst og spurt svo."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×