Innlent

2.000 fá að velja efstu menn

Kjördæmasambönd Framsóknarflokksins í suður- og norðurkjördæmum Reykjavíkur undirbúa sameiginlegan fund þar sem endanlega verður ákveðið hvernig staðið verður að sjálfstæðu framboði Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor. Fundurinn verður haldinn innan tíðar. Á félagsfundi Framsóknarflokksins í Reykjavík í fyrrakvöld var samþykkt að flokkurinn skyldi bjóða fram eigin lista líkt og aðrir R-listaflokkar hafa þegar ákveðið að gera. Samþykktin felur að minnsta kosti í sér að öllum flokksbundnum Framsóknarmönnum í Reykjavík verður gefinn kostur á að taka þátt í vali fulltrúa og uppröðun á framboðslistann. Kjördæmasamböndin ráða því hins vegar hvernig að því verður staðið. Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi Framsóknarflokksins fagnar þessari samþykkt. "Flokksbundnir Framsóknarmenn eru yfir tvö þúsund í höfuðborginni og fram kom ótvíræður vilji fundarins til þess að hafa þetta val sem opnast." Alfreð Þorsteinsson hefur ákveðið að gefa kost á sér í fyrsta sæti listans. Anna Kristinsdóttir varaborgarfulltrúi hefur ekki ákveðið hvort hún sækist einnig eftir fyrsta sætinu. Fréttablaðinu hefur ekki tekist að fá staðfestar fregnir um breiðan og almennan stuðning Framsóknarmanna í Reykjavík við framboð Önnu í fyrsta sætið. Björn Ingi Hrafnsson aðstoðarmaður forsætisráðherra játar því hvorki né neitar að hann hafi hug á að sækjast eftir efsta sæti listans. Fleirri gætu bæst í hópinn. Talið er að sjötíu til níutíu manns hafi sótt félagsfund Framsóknarmanna í fyrrakvöld. Auk þess sem samþykkt var að bjóða fram eigin lista Framsóknarflokksins og heimila sem flestum flokksmönnum að taka þátt í vali efstu manna á lista var samninganefnd flokksins um áframhaldandi samstarf innan R-listans færðar þakkir enda hefði hún unnið af heilindum og teygt sig langt til frekara samstarfs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×