Innlent

Verða að halda vel á spilunum

Sjálfstæðismenn mega vel við una en samt er kálið ekki sopið þótt í ausuna sé komið. Þetta segir prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands um niðurstöður skoðanakönnunar Fréttablaðsins á fylgi reykvísku stjórnmálaflokkanna. "Fyrir Sjálfstæðisflokkinn eru þetta jákvæð skilaboð," segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. "Á svipuðum tíma fyrir síðustu kosningar var flokkurinn hins vegar líka með ágæta forystu en það dugði þó ekki til. Þeir þurfa því, ef maður dæmir af reynslunni, að hafa býsna gott forskot til að eiga möguleika á að sigra á endanum." Hann bætir því við að svo virðist sem fylgi flokksins sé oft ofmetið í skoðanakönnunum. Gunnar Helgi segir að afleiðingar þess að flokkarnir sem áður mynduðu Reykjavíkurlistann bjóði fram hver í sínu lagi séu þegar að koma í ljós. "Í borgarstjórn eru bara fimmtán borgarfulltrúar og það er óvenju lítið. Það er hins vegar mikill þröskuldur fyrir litla flokka að yfirstíga og skaðar þá vinstri vænginn þegar þeir bjóða fram hver í sínu lagi því þá falla mörg atkvæði dauð."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×