Innlent

Árni Þór vill annað sæti V-lista

Árni Þór Sigurðsson Vinstri grænum, sem skipaði efsta sæti R-listans í síðustu borgarstjórnarkosningum, hefur ákveðið að gefa kost á sér í annað sæti lista Vinstri grænna fyrir borgarstjórnarkosningarnar næst vor. "Við teljum raunhæft að fylgi Vinstri grænna sé á bilinu 10 til 15 prósent í höfuðborginni. Við þurfum um tólf til þrettán prósent til að ná inn tveimur mönnum. Þetta er því baráttusæti," sagði Árni Þór þegar hann kynnti ákvörðun sína í gær. Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur ákveðið að halda prófkjör í Reykjavík 1. október næstkomandi. Gert er ráð fyrir því að bjóða fram svonefndan fléttulista þar sem hlutfall kvenna og karla verður jafnt. "Með þessari ákvörðun minni er ég um leið að greiða götu þess að kona skipti efsta sæti listans og væri að því bæði sómi og reisn fyrir V-listann," segir Árni Þór. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er víst að Svandís Svavarsdóttir gefi kost á sér í efsta sæti listans en Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi hefur einnig verið orðuð við efstu sætin. "Við ætlum að leggja mikið undir. Ég er sjálfur að leggja mikið undir með ákvörðun minni. Ef flokksmenn verða sammála mér um þessa ákvörðun í prófkjörinu eru þeir einnig að segja að allt kapp verði lagt á það að ná inn tveimur mönnum. Í könnun Fréttablaðsins um helgina mældist fylgi Vinstri grænna tæp níu prósent, en til þess að ná inn tveimur mönnum þarf V-listinn að fá 12 - 13 prósenta fylgi eins og áður segir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×