Innlent

Þegar Davíð lagði Albert

"Prófkjörinu var breytt beinlínis til að knésetja mig. Öll kosningamaskína flokkseigendafélagsins beitti sér gegn mér," sagði Albert Guðmundsson við Dagblaðið&Vísi 1. desember 1981. Albert hafði þá beðið lægri hlut fyrir Davíð Oddssyni í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík en til prófkjörsins var efnt vegna borgarstjórnarkosninganna 1982. Margir telja að í þessu prófkjöri hafi síðast í fullri alvöru verið barist um efsta sætið í prófkjöri flokksins fyrir borgarstjórnarkosningar, þangað til nú. Davíð sigraði í prófkjörinu, Markús Örn Antonsson skaust upp í annað sætið og Albert hlaut þriðja sætið en stefndi á það efsta. Tveir hafa nú boðið sig fram í efsta sæti sjálfstæðismanna í Reykjavík, þeir Gísli Marteinn Baldursson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og má búast við að kosning milli þeirra geti ekki orðið síður spennandi en prófkjörið 1981. @.mfyr:Kosið um borgarstjórastólinn @.megin:Þá var barist um borgarstjórastólinn."Markús Örn Antonsson skýst upp í annað sæti, nokkuð á óvart ef haft er í huga, að slagurinn stóð fyrst og fremst milli Davíðs og Alberts um fyrsta sætið," sagði í leiðara Dagblaðsins&Vísis daginn eftir prófkjörið. Davíð var þó varkár í viðtali við Tímann þegar úrslit lágu fyrir. "Það er borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins sem ákveður borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins og prófkjörið er aðeins þáttur í því," sagði Davíð Oddsson við Tímann 1. desember 1981. Davíð varð í kjölfar prófkjörsins 1981 borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins og næsti borgarstjóri í Reykjavík. Sjálfstæðisflokkurinn hafði missti meirihluta í borginni í kosningunum árið 1978 en Birgir Ísleifur Gunnarsson, sem þá leiddi flokkinn, hafði vikið þegar vinstri flokkarnir náðu meirihluta í borginni og tók ekki þátt í prófkjörinu. Davíð varð oddviti borgarstjórnarflokksins en hafði fengið kosningu í fjórða sætið í prófkjöri í maí 1978. Í prófkjörinu árið 1981 þar sem Davíð sigraði hlaut hann 3948 atkvæði, Markús Örn hlaut 3925 atkvæði og Albert fékk 3842 atkvæði. Mjótt var því á milli Davíðs og Markúsar Arnar en sá síðarnefndi tók eins og kunnugt er við starfi Davíðs sem borgarstjóri í Reykjavík árið 1991 þegar Davíð varð forsætisráðherra. Í prófkjörinu 1981 var ekki kosið um sæti á annan hátt en þann að þátttakendur í prófkjörinu merktu við tiltekinni fjölda frambjóðenda og sá sem hlaut flest atkvæði, hann fékk efsta sætið og svo koll af kolli.   @.mfyr:Prófkjör frekar regla en undantekning @.megin:Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar lagði kjörnefnd Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík til að stillt yrði upp á lista flokksins. Þegar er litið er til baka til ársins 1978 kemur í ljós að fyrir síðustu sjö borgarstjórnarkosningar hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið prófkjör fimm sinnum en tvisvar hefur verið stillt upp á listann af kjörnefnd flokksins í Reykjavík. Auk síðustu kosninga var það árið 1990. Síðast var því prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík árið 1997 en þá var reyndar einnig barist um efsta sætið því þá bauð Inga Jóna Þórðardóttir sig fram gegn Árna Sigfússyni, þáverandi oddvita borgarstjórnarflokksins, í prófkjöri en Árni sigraði og hlaut 4.542 atkvæði í efsta sætið en Inga Jóna 1.184 atkvæði. Inga Jóna hafnaði í þriðja sætið í prófkjörinu en prófkjörsreglur voru öðruvísi þá en í því prófkjöri sem áður var vísað til. Þáttaka í prófkjörum sjálfstæðismanna er mikil. Rík hefð er fyrir prófkjörum hjá flokknum hvort sem er fyrir borgarstjórnarkosningar eða alþingiskosningar. Ekki mun skoðanakönnun Fréttablaðsins frá því um helgina um fylgi flokkanna í Reykjavík draga úr áhuga reykvískra sjálfstæðismanna til að taka þátt í prófkjörinu, hvort sem er sem frambjóðendur eða kjósendur. Ekki síst þegar efsta sætið í prófkjörinu getur gefið borgarstjórastólinn eins og í prófkjörinu þegar Davíð sigraði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×