Innlent

Vill grænt samstarf til vinstri

Svandís Svavarsdóttir framkvæmdastjóri Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs ákvað í gær að gefa kost á sér í fyrsta sæti V-listans í forvali flokksins sem fram fer 1. október næstkomandi. "Margir flokksmenn hafa hvatt mig til þess að bjóða mig fram. Eftir að Árni Þór Sigurðsson, oddviti Vinstri grænna í borginni til margra ára, sýndi þá djörfung og stórlyndi að bjóða sig fram í annað sæti listans hafa enn fleiri orðað þetta við mig. Því hef ég nú ákveðið að taka þátt í forvalinu og þar með er það undir félögunum komið að ákveða hvort ég sé vel til þess fallin að leiða listann," segir Svandís. Svandís hefur í kjölfar þessa ákveðið að losa sig frá þeim trúnaðarstörfum fyrir Vinstri græna sem tengst geta undirbúningi forvalsins. "Ég vinn meðal annars með félagaskrá Vinstri grænna og verð að vera hafin upp yfir allan vafa. Gæta þarf jafnræðis gagnvart öðrum sem taka þátt í forvalinu." Svandís segist vilja stefna að vinstra samstarfi með grænum áherslum eftir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×