Innlent

Vill fé til að mæta umönnunarvanda

Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri hefur ákveðið að leggja fyrir borgarráð tillögur um sérstaka fjárheimild til að veita stjórnendum leikskóla og frístundaheimila olnbogarými til að greiða fyrir yfirvinnu og álag vegna undirmönnunar sem nú háir leikskólastarfi í borginni. Borgarstjóri ætlar enn fremur að beina því til samningarnefndar Reykjavíkurborgar að hefja sem fyrst samningaviðræður með það að markmiði að ljúka þeim sem fyrst, jafnvel þannig að nýir kjarasamningar geti tekið gildi 1. október næstkomandi. Á fundi með foreldrum í Grandaborg í gær sagði Steinunn Valdís að mikilvægt væri að bregðast við ófremdarástandi í þessum málum og að Reykjavíkurborg legði allt kapp á að leita lausna á vandanum sem foreldrar margra barna stæðu frammi fyrir. Hún sagði slæmt fyrir borgina að geta ekki boðið fullnægjandi þjónustu og vonaði að áformin yrðu til þess að koma leikskólamálunum í það horf að foreldrar gætu búið við öryggi um börn sín, en áætlaður kostnaður við áformin gæti numið allt að 50 milljónum króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×