Innlent

Úthluta hvatapeningum í Garðabæ

Bæjarstjórn Garðabæjar hefur samþykkt að hvert barn á aldrinum 6-16 ára fái árlega úthlutað tiltekinni upphæð, svokölluðum hvatapeningum, sem barnið og/eða foreldrar þess geta varið til að greiða niður félagsgjöld í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Upphæðin verður 10 þúsund krónur á barn á árinu 2005 og 20 þúsund krónur á ársgrundvelli frá og með árinu 2006. Í tillkynningu frá Garðabæ kemur fram að með hvatapeningunum sé stuðlað að valfrelsi, jafnrétti og fjölbreytni á sviði íþrótta- og æskulýðsmála sem sé framhald hugmyndafræðinnar um valfrelsi sem áður hefur verið útfærð í skólamálum í bænum. Úthlutun peninganna fer fram á íbúavef Garðabæjar, Mínum Garðabæ, þar sem íbúar geta millifært hvatapeninga sinna barna til félags/greinar að eigin vali. Kerfið verður einfalt til að byrja með en þróað áfram á næstu mánuðum og árum með það í huga að einfalda framkvæmd úthlutunar peninganna og veita félögunum, bæjaryfirvöldum og foreldrum betri yfirsýn yfir það starf sem er í boði í bænum og um raunverulega iðkun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×