Innlent

Verðhækkanir leiði til nýrra leiða

Bensínverðhækkanirnar eru jákvæðar að mati Péturs Blöndals, formanns efnahags- og viðskiptanefndar. Hann segir þær verða til þess að leitað verði nýrra leiða við orkugjöf og þar komi Íslendingar sterkir inn. Bensínverðhækkanir undanfarna daga hafa mikil áhrif á ýmsan rekstur hér á landi og um allan heim. Má þar nefna samgöngur á borð við flug, sjávarútveginn og margt fleira. Olíufélögin Esso, Olís og Skeljungur hækkuðu bensínlítrann um fjórar krónur í gær en álíka hækkun tók ekki gildi hjá Atlantsolíu fyrr en á miðnætti en biðraðir mynduðust við sjálfsafgreiðslustöðvar Atlantsolíu í gærkvöldi. Algengt verð fyrir lítra af 95 oktana bensíni er nú um 118 krónur og dísilolíu rúmar 114 krónur í sjálfsafgreiðslu á flestum stærri stöðvunum á höfuðborgarsvæðinu. Með fullri þjónustu er verð á 95 oktana bensíni nú víðast hvar um 122 krónur lítrinn og á dísilolíu um 120 krónur. Pétur Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, sagði í Íslandi í bítið í gærmorgun að þróunin á bensínverði væri jákvæð. Til þess að takmarka neysluna þyrfti að hækka verðið, það væri ósköp eðlilegt. Í kjölfarið færu menn að leita að nýjum orkulindum og benti Pétur á fréttir af djúpborunum á háhitasvæðum í því sambandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×