Innlent

Vill greiðslur til að brúa bil

Björn Ingi Hrafnsson, formaður fjölskyldunefndar ríkisstjórnarinnar, vill láta greiða foreldrum barna á aldrinum níu til átján mánaða svo að þau geti til dæmis og ef þeir kjósa greitt öfum og ömmum laun fyrir að passa börnin. Björn Ingi segir gat í kerfinu eins og er, milli níu og átján mánaða aldurs, og hann telji að vinna verði úr því vegna þess að það sér mikilvægt fyrir foreldra. Spurður um það út á hvað tillaga hans í þessum efnum gangi segir Björn Ingi að foreldrar barna á þessum aldri fengju greiðslu sem fylgdu hverju barni þannig að þeim væri í sjálfsvald sett hvort þau nýttu greiðsluna til að vera lengur heima með sínu barni, fram að því að það fái leikskólavist, eða nýttu fjármunina til þess að greiða ættingjum eða vinum, t.d. ömmum eða öfum, til þess að brúa bilið og leyfa þannig börnunum að vera lengur heima. Í þriðja lagi væri hægt að nýta greiðsluna til að greiða dagforeldrum fyrir vistun. Björn Ingi segir Reykjavíkurborg greiða slíka vist niður um 11 þúsund krónur en staðreyndin sé sú að ekki komist öll börn að hjá dagforeldrum og foreldrar barna á aldrinum 9-18 mánaða bjargi málunum með alls konar hætti og séu oft í vandræðum frá degi til dags. Auk þess að vera formaður fjölskyldunefndarinnar er Björn Ingi aðstoðarmaður forsætisráðherra og orðaður við framboð í borgarstjórnarkosningunum. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, brást skjótt við þegar Björn Ingi kynnti hugmynd sína á heimasíðu sinni og sendi honum orðsendingu sem hefst svona: „Flottur grunnur til að fara á í borgarstjórnarframboð, félagi Björn Ingi.“ Björn Ingi segist telja að þessi mál sem varði fjölskylduna, velferðarmál og félagsleg mál muni verða mjög áberandi í kosningabaráttunni fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor og í raun fyrir þingkosningar árið eftir. Þess vegna telji hann að mál sem þetta sé góður grunnur fyrir borgarstjórnarkosningarnar en það sé ekki hugsað fyrir einn frambjóðanda frekar en annan. Össur segir að ef Birni Inga lítist ekki á möguleikana í Framsókn sé hann velkominn „til okkar í Samfó,“ eins og hann segir. Björn Ingi segir boðið höfðinglegt en hann sé fullkomlega sáttur í Framsóknarflokknum og hann telji sig vel eiga heima þar. Það sé þó alltaf gott að vita af því að maður sé velkominn einhvers staðar annars staðar. Spurður um þau orð Össurar að það vanti reynda „spindoktora“ í Samfylkinguna segist Björn Ingi sammála því en hann verði að biðjast undan því vegna þess að hann telji að hann hafi verk að vinna hjá Framsóknarflokknum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×