Innlent

Fagnar vilja fjölskyldunefndar

Stefán Jón Hafstein, formaður menntasviðs Reykjavíkurborgar, fagnar því að fjölskyldunefnd ríkisstjórnarinnar skuli vilja skoða hag barnafólks frá því að fæðingarorlof lýkur við níu mánaða aldur þar til börnin fái pláss á leikskóla við átján mánaða aldur. Björn Ingi Hrafnsson, formaður nefndarinnar, hefur lýst yfir vilja til þess að brúa þetta bil og segir Stefán í yfirlýsingu að tími sé kominn til að ræða af fullri hreinskilni um það hvernig ríki og sveitarfélög komi til móts við barnafólk á þessum tíma. Að mati Stefáns Jóns kemur þrennt til greina: að lengja fæðingarorlof, að ríki og öll sveitarfélög sameinist um að á næstu árum verði í boði gjaldfrjáls leikskóli sem fyrsta menntastigið frá 18 mánaða aldri þar sem tryggð verði framlög til málaflokksins, eða að bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla verði brúað með blöndu úrræða að vali foreldra þar sem stuðningur ríkis og sveitarfélaga birtist samtímis með fjárhagslegum úrræðum og faglegum stuðningi við þá sem þjónustu veita. Ljóst sé að skoðun dagforeldrakerfisins hljóti að vera hluti af myndinni. Þá segir Stefán að ef fjölskyldunefnd ríkisstórnarinnar vilji ganga til opinnar viðræðu við sveitarfélögin um málefnið muni ekki standa á Reykjavíkurborg að leggja sitt til málanna. Borgin hafi sett stefnu á gjaldfrjálsan leikskóla í áföngum og með fullmönnun leikskóla í haust verði hægt að bjóða öllum 18 mánaða börnum og eldri leikskólavist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×