Innlent

Engin yfirlýsing frá Davíð

Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokkinns, gaf engar yfirlýsingar um framtíð sína í stjórnmálum þegar hann ávarpaði fjölmennan fund Varðar - fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík í gær. Orðrómur hefur verið uppi um að Davíð hyggist standa upp úr sæti formanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins sem haldinn verður eftir um sex vikur. "Ég hef ekki gefið neina tilkynningu um annað. Meðan það stendur er það þannig," sagði Davíð þegar blaða- og fréttamenn spurðu hann eftir fundinn í gær hvort hann ætlaði að bjóða sig fram til formanns flokksins. Aðspurður um það hvort hann skuldaði flokksmönnum svar á hvorn veginn sem það yrði sagði Davíð að landsfundurinn væri endapunkturinn. "Ég þarf ekki að gefa neitt út fyrr en þar. Á landsfundinum eru allir í kjöri. Það er óbundin kosning. Þessi fundur nú var aðeins um borgarmálin og prófkjörið," sagði Davíð. Samþykkt var á fulltrúaráðsfundinum í gær að halda prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 4. og 5. nóvember vegna borgarstjórnarkosninganna næsta vor.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×