Innlent

Blaðamannafundur klukkan 15.15

Þingflokkur og miðstjórn Sjálfstæðisflokksins hafa verið boðuð til fundar í Valhöll klukkan tvö. Í kjölfarið, klukkan 15.15, hyggst Davíð Oddsson svo halda blaðamannafund og samkvæmt heimildum fréttastofu mun hann tilkynna þar að hann gefi ekki aftur kost á sér sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Bein útsending verður frá fundinum á Stöð 2, Bylgjunni, Talstöðinni og á VefTV Vísis.  Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins var boðaður til fundar í Valhöll í dag en tilefni fundarins var ekki gefið upp við boðunina og þó sat þingflokkurinn fund síðast í gær. Hvorki ráðherrar né óbreyttir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem fréttastofa Bylgjunnar og Stöð 2 hefur talað við, segjast vita hvert fundarefnið sé en einn þeirra sagði að þá grunaði alla það sama, að Davíð Oddsson hygðist gefa yfirlýsingu um pólitíska framtíð sína. Enginn ímyndi sér að Davíð Oddsson láti kalla saman þingflokkinn aftur, daginn eftir þingflokksfund, til að skýra frá því að hann hyggist halda áfram sem formaður flokksins, en hann hefur gegnt því embætti frá árini 1991.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×