Innlent

Hefði viljað hafa Davíð áfram

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, hefði frekar kosið að hafa Davíð Oddsson áfram í ríkisstjórn. Hann segir að stjórnin sé veikari eftir - fyrst um sinn. Halldór Ásgrímsson segist ekki aðeins sjá eftir góðum samstarfsfélaga úr stjórnmálum heldur líka góðum vini. Spurður hvort brotthvarf Davíðs veiki ríkisstjórnina og samstarf ríkisstjórnarflokkanna segir Halldór að það geri það til skemmri tíma litið. Hins vegar hafi hann nú þegar talað við varaformann Sjálfstæðisflokksins og það verði mjög gott samstarf á milli þeirra. Það hafi alltaf verið það og hann kvíði engu um það en það verði vissulega eftirsjá að Davíð. Aðspurður hvenær ákvörðun hefði verið tekin um að hann yrði seðlabankastjóri segir Halldór að málin hafi verið að þróast. Hann neiti því ekki að þessi mál hafi komið til tals þeirra í milli í gegnum tíðina en það hafi verið fyrir nokkrum dögum að endanleg ákvörðun hafi verið tekin. Hann hafi afhent Davíð skipunarbréf þessa efnis í morgun. Halldór segist sjá eftir Davíð og hann hefði viljað hafa hann áfram í stjórnmálunum en það verði hver maður að ákveða sjálfur hvenær hann hætt. Hann hafi þá trú að Davíð hafi í þessu sem flestu öðru tekið rétta ákvörðun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×