Innlent

Fátt sem kemur á óvart

Tilkynnt var í gær að Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, taki við af Árna Mathiesen sem sjávarútvegsráðherra 27. september. Hann segist munu vinna í þeim anda sem ríkisstjórnin hafi markað stefnu um. "Ég hef sem betur ferið verið þátttakandi í þeim miklu breytingum sem hafa orðið á undanförnum árum. Ég var um tíma formaður sjávarútvegsnefndar og sit í sjávarútvegsnefnd, þannig að það er fátt sem kemur mér í rauninni á óvart." Spurður að því hvort gagnrýni Vestfirðinga á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi eigi greiðari aðgang í sjávarútvegsráðuneytið eftir að hann taki við starfi ráðherra, sagði hann það ekki ólíklegt. "Ég hef sjálfur verið gagnrýninn á sjávarútvegsstefnuna á margan hátt. Hins vegar höfum við verið að breyta sjávarútvegsstefnunni til að koma til móts við þá gagnrýni. Það sem vekur eftirtekt núna er að það er meiri sátt um sjávarútvegsstefnuna en hefur verið um árabil, allt frá því ég fór að fylgjast með." Hvað varðar tilkynnt brotthvarf Davíðs úr stjórnmálum segir hann að það verði gífurlegur missir af Davíð, en Einar mun styðja Geir sem næsta formann Sjálfstæðisflokksins. Einar K. er nú formaður þingflokks sjálfstæðismanna, en ekki liggur fyrir hver tekur við af honum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×