Innlent

Geir Haarde næsti formaður?

Geir H. Haarde varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra tekur við embætti utanríkisráðherra af Davíð Oddssyni á ríkisráðsfundi 27. september næstkomandi. Geir hefur áður lýst áhuga á að taka við formennsku í Sjálfstæðisflokknum kæmi til þess að Davíð hætti. Geir staðfesti í gær að hann hygðist bjóða sig fram til formennsku á landsfundi flokksins í næsta mánuði, en hann nýtur stuðnings Davíðs. "Það er auðvitað mikil eftirsjá í Davíð Oddssyni sem nú ákveður að hætta afskiptum af stjórnmálum. Við höfum verið samherjar frá því á menntaskóla og höfum undanfarin fjórtán ár starfað þétt saman. Það er eftirsjá af því samstarfi. Nú taka nýir tímar við og ég hef ákveðið að gefa kost á mér sem eftirmaður hans á formannstóli í Sjálfstæðisflokknum. En ég ræð því ekki. Það eru flokksmenn á landsfundi sem ráða. Ég bíð þess sem verða vill í þeim efnum." Geir segist fylgja óbreyttri stefnu þegar hann tekur við af Davíð í utanríkisráðuneytinu. "Ég hlakka til að fá tækifæri til að glíma við ný verkefni. Ég hef löngum haft mikinn áhuga á utanríkis- og alþjóðamálum," segir Geir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×